Hvatningarverðlaun foreldrafélags Varmárskóla voru veitt í þriðja sinn í lok skólaárs. Foreldrafélagið óskaði eftir tilnefningum frá foreldrum og nemendum og bárust fjölmargar tilnefningar með umsögnum. Það er greinilegt að Varmárskóli býr að starfsfólki sem skarar fram úr og brennur fyrir starf sitt. Það var Þyri Kristínardóttir, kennari í 4. bekk, sem hlaut hvatningarverðlaun foreldrafélagsins árið 2020. Í umsögnum um hana er m.a. talað um að Þyri sé þessi uppáhaldskennari sem leggur metnað sinn í að hjálpa nemendum sínum að vaxa og dafna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Hún er talin vera skipulögð, taka vel á vandamálum, halda aga í bekknum og vera dugleg að upplýsa foreldra um skólastarfið. Hún hlaut í verðlaun gjafabréf á Blik Bistro & Grill og fallega lavander plöntu. Þær Andrea Sif Sigurðardóttir, Thelma Hermannsdóttir og Katrín Dögg Hilmarsdóttir fengu sérstaka viðurkenningu og lavander plöntu frá foreldrafélaginu vegna einstaklega fallegra umsagna sem þær fengu frá foreldrum og nemendum.
Foreldrafélag Varmárskóla
Comentários