Í kjölfar ytra mats á Varmárskóla árið 2019 var ákveðið að fá utanaðkomandi aðila, HLH ráðgjöf, til þess að rýna í stjórnskipulag skólans. Meginmarkmið úttektar var að greina stjórnskipulag og stjórnun Varmárskóla og setja fram sviðsmyndir þar sem lagt væri mat á hvaða sviðsmynd feli í sér mestan ávinning til framtíðar fyrir skólann.
HLH ráðgjöf lagði tillögur sínar fyrir bæjarráði Mosfellsbæjar þann 14. janúar síðastliðinn og í kjölfarið vísaði bæjarráð greiningunni til umsagnar hjá fræðslunefnd og skólaráði. Jafnframt voru tillögurnar kynntar hagaðilum eins og stjórnendum & starfsmönnum og loks foreldrum/forráðamönnum þann 19. janúar í rafrænni kynningu. Í framhaldi af þessari málsmeðferð verður málið tekið til umræðu og afgreiðslu í bæjarráði í febrúar.
Haraldur L. Haraldsson frá HLH ráðgjöf annaðist verkið. Við gerð skýrslunnar var rætt við báða skólastjóra Varmárskóla, alla deildarstjóra við skólann, formann stjórnar foreldrafélagsins og verkefnastjóra grunnskólamála hjá Mosfellsbæ. Auk þess var rætt við bæjarstjóra og framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs. Stuðst var við tölulegar upplýsingar frá skólastjórum og af vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Megintillaga HLH ráðgjafar er að skipta Varmárskóla í tvo sjálfstæða skóla. Þannig fáist markvissari stjórnun á málefnum hvors skóla, bæði faglega og fjárhagslega. Það fari betur á því að bæði fagleg og rekstrarleg ábyrgð sé hjá einum aðila í stað tveggja eins og nú er. Samskipti út á við ættu m.a. að verða auðveldari þar sem einn aðili ber ábyrgð á þeim í stað tveggja eins og nú er.
Aðrar tillögur eru:
· að yfirstjórn í hvorum skóla verði óbreytt eða einn skólastjóri og þrír deildarstjórar, þar af einn deildarstjóri stoðdeildar.
· að starfslýsingar deildarstjóra verði yfirfarnar.
· að stöðugildi skólaritara/þjónustufulltrúa verði 1,20 við hvorn skóla.
· að umsjónarmaður fasteigna og kerfisstjóri verði í einu stöðugildi og sinni báðum skólum en þó bara annar skólastjórinn næsti yfirmaður þeirra.
· að eitt eldhús, í eldri deild, verður áfram fyrir báða skóla en að nemendur matist í sínum skólum. Þannig að krakkar úr yngri deild fari ekki upp í eldri deild í mat. Nemendum verður þá skipt í hópa sem koma í mat á mismunandi tíma.
· að fyrirkomulag á skólalóð verður áfram sameiginleg.
Skýrsluna frá HLH ráðgjöf má finna hér fyrir neðan
Það komu ýmsar spurningar í fyrirspurnartíma eftir kynninguna sem haldin var fyrir foreldra/forráðamann þann 19. janúar. Spurningar voru bornar fram sem komment á Facebook og svörin fengust í beinni útsendingu.
Hvernig mun þetta koma til með að snúa að börnunum. Munu foreldrar þurfa að skrá börnin í eldri deild og getur komið til þess að barn fái þá ekki í eldri deildina?
Linda Udengård - Framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs svaraði: „Nei það mun ekki koma til. Þetta er eitt skólahverfi þannig að það er samfella á milli skóla."
Hvað með stefnur og strauma, nú er ákveðinn munur á stefnum og straumum milli skóla innan Mosfellsbæjar. Hvernig sjáið þið það fyrir ykkur?
Linda Udengård bað skólastjórnendur um að svara spurningunni en sagði þó einnig: „Það er misjöfn menning á milli allra skóla í Mosfellsbæ og það er misjöfn menning á milli húsa hérna í dag. Sú menning er misjöfn eftir því hvort þú ferð í leikskóla eða grunnskóla. Það hafa allir haldið í sínar stefnur og strauma. Ef að þessar tillögur ná fram að ganga að þá verður skipaður starfshópur þar sem allir hagaðilar munu eiga aðkomu inn í til að ræða áframhaldandi meðferð þessara tillagna og framkvæmdaráætlun þannig að foreldrar munu að sjálfsögðu eiga inn í þann hóp sína fulltrúa". Þórhildur tók svo orðið og sagði: „Það er alveg rétt það er mismunandi menning á milli húsa sem er jákvætt. Við erum með yngri börn í öðru húsinu og eldri börn í hinu húsinu og það svona kannski breytir aðeins þó að við sameinumst vel það er þá kannski þriðja menningin sem við erum að taka saman. En ég hef engar áhyggjur af þessu, ég tel að þetta verði bara eitthvað sem kemur þegar að þessu kemur og að við þurfum ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því".
Hvenær gæti niðurstaða / ákvörðun um framhald verið komin?
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri svaraði: "Eins og ég sagði í upphafi var þessi skýrsla og tillögur HLH ráðgjafar teknar fyrir í bæjarráði síðastliðinn fimmtudag þar var þeim vísað í umsagnarferli annars vegar hjá fræðslunefnd og hjá skólaráði. Þær umsagnir liggja ekki fyrir en það var þó skólaráðs fundur í morgun og annar eftir viku þar sem stendur til að ganga frá um umsögn. Það er fræðslunefndar fundur á morgun þar sem þetta verður tekið fyrir og svo var þessu vísað til kynningar hjá stjórnendum, starfsmönnum skólans og foreldrum og þar erum við stödd núna. Bæjarráð bókaði að loknu þessu samráðsferli og þessu umsagnarferli að þá verður málið aftur tekið fyrir í bæjarráði í febrúar og það afgreitt. Það er mikilvægt, þó að sjálfsögðu að við viljum að þetta fái umræðu og skoðanir og slíkt, að þetta taki þó ekki of langan tíma. Það er ekki gott að hafa einhverja óvissu, það liggur hér fyrir úttekt, það liggur hér fyrir tillögur og að mati bæjarráðs eigi að afgreiða málið í febrúar svo óvissan lægi ekki lengur en það. Það er búið að kynna þessar tillögur og það er gott að taka afstöðu til þeirra sem fyrst þó að við að sjálfsögðu viljum gefa þann tíma sem þarf".
Verður þá hvor skóli með t.d. sitt foreldrafélag?
Anna Gréta skólastjórnandi yngri deildar svaraði: „Ég tel að hvor skóli ætti að hafa sitt foreldrafélag, grunnskólalögin kveða á um það að hver skóli eigi að vera með sitt foreldrafélag. Þannig að ég held að það væri mjög eðlilegt að það yrði svoleiðis".
Af hverju var ákveðið að sameina skólana 2001?
Haraldur Sverrisson svaraði: „Þetta er ágætis spurning en ég veit ekki í sjálfu sér svarið ekki annað en það að þessi ákvörðun var tekin. Það eru 20 ár síðan og það hafa örugglega legið gildar og góðar ástæður fyrir því og ég ber virðingu fyrir þeirri ákvörðun. Ég var ekki og enginn okkar hér við þetta borð vorum þátttakendur í því verkefni en það var niðurstaðan og það var eftir held ég ágætlega ígrundað ferli. Niðurstaðan eða reyndin er sú að við höfum fengið ábendingar um það að það verkefni hafi ekki tekist sem skyldi, bæði í ytra matinu sem var gert í fyrra og í ytra matinu sem var gert fyrir 10 árum síðan. Það þarf bara að bregðast við því og reyna að koma því í þann farveg sem best er og það liggur hér fyrir tillaga um það en ég er með þessu ekkert að segja að það hafi verið einhver röng ákvörðun á sínum tíma. Það hafa örugglega legið fyrir gild og góð rök fyrir því en tímarnir breytast og svo stundum tekst ekki að hrynda því í framkvæmd sem er ætlað og það hefur ekki alveg tekist í þessu. Við bara bregðumst með því eins og við erum að gera hérna núna með því að skoða þetta uppá nýtt".
Setti ytra matið út á stjórnarskipulagið eða stjórnunina?
Haraldur Sverrisson svaraði: „Það sem við vorum að bregðast við var í raun og veru það að ytra matið var að gera athugasemdir eða minna á það eða velta því fyrir sér hvort að stjórnskipulagið sem var ákveðið þarna 2001 og þær fyriráætlanir sem þau höfðu í för með sér, það er að segja, að sú ákvörðun að sameina skólann á sínum tíma hafði gengið eftir. Það voru svona ábendingar í ytra matinu bæði 2010 og svo í fyrra um að innleiðingin hafi ekki alveg gengið eftir og þess vegna vildum við grafast fyrir um það af hverju þetta er og þetta er sem sagt niðurstaðan. Ytra matið gerði athugasemdir eða var með ábendingar um stjórnskipulagið".
Ef niðurstaðan verður sú að hafa þetta tvo skóla hvenær má þá búast við að skólarnir hefji starf í sitt hvoru lagi?
Linda Udengård svaraði: „Ef að þetta verður niðustaðan að þá reiknum við með að næsta haust að þá verði þetta staðan í starfseminni, tveir skólar. En fyrst og fremst þurfum við að fá niðurstöðu og síðan að vinna faglega að þessum málum þegar að niðurstaðan er komin". Haraldur bætir við: „ef að þetta verður niðurstaðan að fara að ábendingu ráðgjafans og það verði tveir sjálfstæðir skólar að þá held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta gangi snurðulaust fyrir sig. Að hvorki foreldra né nemendur séu að finna fyrir einhverjum breytingum og ég held að það ætti alveg að vera hægt. Það kemur fram í þessari úttekt að starfsemin sé eins og tveir skólar og svona praktísku hlutirnir þannig og þeir sem eru það ekki held ég að sé auðvelt að koma þeim þannig fyrir eins og nafni minn kom fram áðan. í yfirferð sinni um skýrsluna, að það ætti að geta gengið vel fyrir sig. Ef að þetta verður ákvörðunin eða niðurstaðan hef ég ekki áhyggjur af því að þetta verði erfitt ferli í sjálfum sér af því það er líka tillagan að halda óbreyttu stjórnfyrirkomulagi, það er a.m.k. tillagan með stjórendur, deildarstjóra og slíkt og þetta ætti að geta gengið vel fyrir sig ef að það verður niðurstaðan".
Verður þá bekkjarskiptingin eins. Mun 7. bekkur áfram tilheyra eldri deild?
Haraldur L Haraldsson svaraði: „Miðað við stöðuna í húsnæðismálum skólana get ég ekki séð að breyting verði á því nema þá með ærnum kostnaði s.s. byggingalega séð, þannig að ég myndi ætla að þetta verði óbreytt fyrirkomulag. Og bara enn til að undirstrika það sem kom fram í máli nafna míns að þá held ég að verði þetta niðurstaðan að bæði starfsmenn og nemendur og foreldrar eigi ekki að þurf að verða varir við miklar breytingar í skólastarfinu frá því sem að nú er. Eina breytingin sem yrði fyrir foreldra eins og kom fram hérna áðan hjá Önnu skólastjóra að það yrðu náttúrulega tvö foreldrafélög, fyrir sitt hvorn skólann sem að grunnskólalögin gera ráð fyrir og það er kannski líka spurning er ekki bara meira lýðræði í því að vera að dreifa valdinu hjá þeim sem taka þátt í málefnum skólans á hverjum tíma".
Anna Gréta sagði: „Ég held að það sé alveg örugglega rétt hjá mér að sjöundi bekkurinn tilheyrði gagnfræðiskólanum nokkrum árum áður en skólinn er sameinaður 2001". Þórhildur staðfesti að svo hafi verið.
Enn má senda inn fyrirspurnir til skólastjórnenda í formi tölvupósts.
Comments